Alma Sigurðardóttir hefur verið ráðin mannauðsstjóri Gæðabaksturs sem er eitt af stærstu fyrirtækjum í brauðgerð á Íslandi. Greint er frá ráðningu hennar í fréttatilkynningu.

Þar segir að Alma hafi átta ára reynslu af mannauðsmálum, hjá Ístaki og Elju. Áður hafi hún starfað í alls um sjö ár fyrir Norræna félagið við upplýsingaþjónustu um flutninga á Norðurlöndum og Nordjobb.

Alma er með BA próf í spænsku og meistaragráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands. Hún hefur áhuga á Eurovision og glæpasögum auk nýtilkomins áhuga á útivist.

Um Gæðabakstur:

Gæðabakstur var stofnað 1993 en á rætur að rekja til ársins 1952 þegar Ömmubakstur var stofnað. Fyrirtækið rekur einnig Kristjánsbakarí á Akureyri. Hjá fyrirtækjunum starfa um 150 manns.