Neytendasamtökin vilja að tekið sé tillit til hagsmuna almennings við afnám gjaldeyrishafta og leggja til að þak verði sett á verðbætur verðtryggðra lána til að dreifa áhættu af verðbólgu milli neytenda og fjármálastofnana.

Beina þau tilmælum þess efnis í tillögu sem stjórn samtakanna hefur samþykkt, þar sem þau minna á það gríðarlega áfall sem heimilin í landinu urðu fyrir í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008.

Þjóðarsamstaða um áhættuskiptingu

Leggja þau því áherslu á að í kjölfar afnámsins verði unnið að þjóðarsamstöðu til að koma í veg fyrir verðbólgu, vaxtahækkanir og bresti í lífskjörum og stöðu heimilanna. Vilja samtökin að slík samstaða byggi á því að allri áhættu og ábyrgð af verðbólgu og öðrum sveiflum í efnahagslífi þjóðarinnar verði ekki velt eingöngu á neytendur heldur verði áhættunni skipt milli fjármálakerfisins og neytenda.

Það megi til dæmis gera með því að setja þak á þær verðbætur sem verðtryggð lán beri og í þeim efnum sé eðlilegt að miða við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands uppá 2,5%.