Gerð Almannaskarðsganga er um tveimur mánuðum á undan áætlun. Styrkingum með steypu og boltum er lokið í göngunum og þegar hefur verið hafist handa við vatnsvarnir inn í göngunum. reiknað er með að sú vinna taki um það bil mánuð. Eftir að því er lokið eru göngin tilbúin fyrir utan lýsingu og vegagerð.

Mesta vinnan sem eftir er er í vegskálunum. Að sunnanverðu er nýbyrjað að steypa vegskálana en að norðanverðu verður endinn steyptur í vikunni segir í frétt hjá horni.is. Stefnt er að því að vegskálanum þeim megin verði að fullu lokið eftir um það bil hálfan mánuð.

Vegagerð að göngunum er langt komin en í næstu viku verður keyrt út burðarlag að göngunum norðanmegin. Göngin eiga að vera tilbúin um miðjan júní en verkið er hátt í tveimur mánuðum á undan áætlun.