Almar Guðmundsson var í dag ráðinn framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins en undanfarin fimm ár hefur hann verið framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Mun hann hefja störf í október. Kristrún Heimisdóttir, forveri Almars í starfi framkvæmdastjóra SI, lét af störfum í síðustu viku en að sögn Guðrúnar Hafsteinsdóttur , formanns Samtaka iðnaðarins, var aðdragandinn að framkvæmdastjóraskiptunum ekki langur.

Almar er hagfræðingur frá Háskóla Íslands og með MBA gráðu frá London Business School. Áður en hann hóf störf hjá Félagi atvinnurekenda starfaði hann við ýmis stjórnunarstörf innan Íslandsbanka. Almar er formaður knattspyrnudeildar Stjörnunnar í Garðabæ. Hann hefur einnig á undanförnum árum fengist við kennslu við Háskólann í Reykjavík.

VB Sjónvarp ræddi við Almar.