Almar Guðmundsson tók nýlega við sem framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Hann segir það hafa verið áhugavert og lærdómsríkt að taka við svo stórum samtökum þar sem verkefnin séu fjölbreytt.

Fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar tók Almar sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ og var kjörinn bæjarfulltrúi. Hann segist þó ekki eiga von á því að fara út í landsmálin.

„Ég hef alltaf verið þannig gerður að ég vil láta gott af mér leiða og taka þátt í því samfélagi sem ég þrífst í. Ég var kjörinn bæjarfulltrúi í síðustu kosningum og tók þátt í mjög öflugu starfi. Ég ákvað hins vegar, þegar ég færði mig til í starfi, að taka mér leyfi frá þeim störfum. Ég verð í leyfi sem bæjarfulltrúi næstu tvö árin.“

Almar segist hafa tekið sér leyfi til þess að geta einbeitt sér að starfi sínu hjá Samtökum iðnaðarins. „Minn áhugi á að taka þátt í stjórnmálum er meira á þessum samfélagslega grunni sem sveitarstjórnarmálin eru heldur en landsmálin. Mitt starf er hins vegar þess eðlis að ég vinn mikið gagnvart pólitíkinni og ég leyni því ekki að mér finnst það ofboðslega skemmtilegt og áhugavert. Eins og staðan er núna þá heillar það ekki mikið að fara hinum megin við borðið.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .