ALMC, móðurfélag Straums, á nægt fjármagn til að standa við skuldbindingar sínar. Seðlabankinn greip inn í þegar félagið hugðiast greiða 10,15 milljóna evra lán, sem var á gjalddaga 20. nóvember síðastliðinn. Þetta jafngildir 1,7 milljörðum króna.

Andrew Bernhardt
Andrew Bernhardt
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Viðskiptablað Morgunblaðsins greindi frá því í morgun, að ALMC hafi ætlað að greiða kröfuhöfum félagsins fjárhæðina samkvæmt ákvæði í lánasamningi við Deutsche Bank í mars um fyrirframgreiðslu skulda þegar lausafjárstaðan færi yfir tiltekin mörk. Sama dag og greiðslan átti að fara fram tilkynnti Seðlabankinn að greiðslan væri óheimil samkvæmt gjaldeyrislögum. Á meðal skilyrða sem Seðlabankinn hefur sett ALMC er að félagið selji eignir á markaði fyrir 25,6 milljónir evra, jafnvirði ríflega 4,2 milljarða króna, í skiptum fyrir krónur. Það er sú upphæð sem ALMC hefur skipt í evrur frá samþykkt lánasamningsins um miðjan mars á þessu ári.

Andrew Bernhardt, forstjóri ALMC, segir í tilkynningu sem hann hefur sent fjölmiðlum, að unnið sé að skjótri lausn mála með Seðlabankanum. ALMC hafi fullan stuðning lánveitenda til þess.

Í tilkynningunni segir orðrétt:

„ALMC hefur fé til reiðu til að standa við framangreinda afborgun. Félagið greiddi ekki afborgunina í kjölfar samskipta við Seðlabanka Íslands og bíður úrlausnar á tilteknum tæknilegum atriðum sem Seðlabanki Íslands vakti athygli á. Félagið hefur yfir að ráða miklu reiðufé og eignum til að standa við skuldbindingar sínar og hefur þetta ekki áhrif á daglegan rekstur.“