Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, segir stefnt að því að skilja að almennu lán Íbúðalánasjóðs og félagslegan þátt hans í haust.  Það sé liður í því að bæta peningamálastefnuna.

„Það breytir ekki því að Íbúðalánasjóður getur áfram verið með bæði almenn lán og félagsleg lán,“ sagði Ingibjörg Sólrún á fréttamannafundi í dag.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, alþjóðleg matsfyrirtæki ásamt öðrum hafa gagnrýnt fyrirkomulagið á Íbúðalánasjóði.  Aukin heldur vofir yfir úrskurður frá eftirlitsstofnun EFTA (ESA) um Íbúðalánasjóð.

Aðspurð hvort ekki væri heillavænlegast að fela bönkunum almennu lán Íbúðalánssjóðs, sér hún enga sérstaka ástæðu til þess. Ingibjörg Sólrún segir að verið sé að vinna í þessu máli og að ekki verði teknar neinar skyndiákvarðanir varðandi Íbúðalánasjóð.

Vill ekki rugga bátnum

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, segist í samtali við Viðskiptablaðið ósáttur við að boðaðar séu breytingar á sjóðnum nú. Hann kveðst - á fundi með formönnum stjórnarflokkanna í morgun - hafa varað við því að „menn rugguðu bátnum vegna stöðunnar á fasteignamarkaðnum,“ segir hann.

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, segir óljóst hvert stefna eigi með Íbúðalánasjóð. Hún skilji þó boðaðar breytingar sem svo að ekki sé verið að gera grundvallarbreytingar á sjóðnum.

Í yfirlýsingu Geirs H. Haarde forsætisráðherra frá því í morgun um aðgerðir ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans segir meðal annars um Íbúðalánasjóð: „Til þess að bæta virkni peningamálastefnunnar mun ríkisstjórnin meðal annars þegar undirbúa og birta trúverðuga áætlun um umbætur og breytingar á skipulagi Íbúðalánasjóðs.“

Yfrlýsingu Geirs má í heild finna hér .