Almenn útlán Íbúðalánasjóðs jukust um 3% frá fyrri mánuði og námu 4,1 milljarði króna, að því er fram kemur í mánaðarskýrslu sjóðsins. Heildarútlán Íbúðalánasjóðs námu samtals 4,7 milljörðum króna í nóvember en þar af voru um 600 milljónir króna til leiguíbúðalána.

Alls hefur sjóðurinn lánað ríflega 44,6 milljarða króna á árinu 2006.

Í skýrslunni segir að þann 22. nóvember ákváðu sparisjóðirnir að hækka lánshlutfall sitt til íbúðakaupa í 80% af kaupverði fasteigna.

Hér er um að ræða svonefnd hattalán í lánasamstarfi Íbúðalánasjóðs og sparisjóðanna. Íbúðakaupendur nýta sér fyrst hámarkslánshlutfall Íbúðalánsjóðs sem er 17 milljónir króna, en eiga síðan möguleika á láni frá sparisjóðunum til viðbótar.

Í samstarfinu er alls boðið upp á lánshlutfall sem nemur 120% af brunabótamati að viðbættu lóðarmati eignar. Lánsfjárhæðin getur þó aldrei orðið hærri en 80% af kaupverði eignar og er hámarksupphæð samtals 27,1 milljón.

Þann 2. nóvember ákvað bankastjórn Seðlabanka Íslands að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum og í kjölfarið hækkaði ávöxtunarkrafa íbúðabréfa. Ávöxtunarkrafa íbúðabréfa hefur hækkað að undanförnu og má segja að háir stýrivextir og lágar verðbólguvæntingar hafi þar mest áhrif.

?Yfir 90% af skuldabréfum á innlendum skuldabréfamarkaði eru verðtryggð, útgefin til 5 ára eða lengur, og má segja að stýrivextir bankans hafi mest áhrif á styttri enda verðtryggða vaxtaferilsins. Lang stærstur hluti íbúðalána er til allt að 40 ára og það kann því að reynast Seðlabankanum erfitt að stýra svo löngum verðtryggðum vöxtum með skammtíma nafnvöxtum.

Því má leiða að því líkum að peningastefna Seðlabankans skili sér fyrst og fremst í gegnum gengi íslensku krónunnar og bíti á yfirdráttarlán einstaklinga og smærri fyrirtækja. Hækkun á stýrivöxtum Seðlabankans kann að hafa tvíþætt áhrif á húsnæðislið vísitölu neysluverðs.

Annars vegar leiða þeir til hækkunar á vísitölunni í gegnum hækkandi vexti íbúðalána en hins vegar draga þeir úr eftirspurn á fasteignamarkaði sem getur leitt til lækkunar á fasteignaverði og þ.a.l. lækkunar á vísitölu neysluverð.

Enn er deilt um réttmæti þess að fasteignaverð skuli vera liður í vísitölu neysluverðs til verðtryggingar og það kann að vera varasamt fyrir hagkerfið ef fasteignaverð er notað sem stýritæki til að ná niður verðbólgu.Ríkisendurskoðun hefur lokið athugun sinni á fjárhagsstöðu Íbúðalánasjóðs.

Þar kemur fram að niðurstöður hermireikninga og mats á líkindadreifingu vaxtabreytinga benda til þess að ólíklegt sé miðað við hinar gefnu forsendur að eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs stefni niður fyrir áskilin hlutföll í fyrirsjáanlegri framtíð.

Af þeirri niðurstöðu leiðir jafnframt að ólíklegt er að reyna muni á ríkisábyrgð á skuldbindingum Íbúðalánasjóðs. Niðurstaðan í heild sinni var birt á Kauphöll Íslands þann 1. nóvember síðast liðinn.Greiðslur Íbúðalánasjóðs námu tæpum einum milljarði í október,? segir í skýrslunni.