Heildarútlán Íbúðalánasjóðs í maí 2014 námu 1,6 milljörðum króna. Þar af var 321 milljón króna vegna almennra lána, samanborið við 532 milljónir króna í sama mánuði í fyrra. Meðalfjárhæð almennra lána var 10,4 milljónir króna. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.

Heildarvelta íbúðabréfa sjóðsins nam 17,8 milljörðum króna í maí 2014, samanborið við 11,5 milljarða í apríl.

Í skýrslunni kemur fram að vanskil einstaklinga lækki frá sama mánuði í fyrra. Alls voru 7,05% þeirra heimila sem eru með fasteignalán hjá Íbúðalánasjóði með lán í vanskilum í lok maí, samanborið við 8,96% í fyrra. Uppgreiðslur námu hins vegar 2,3 milljörðum, samanborið við 1,6 milljarða í apríl.

Fjöldi fullnustueigna sjóðsins var 2.096 í lok maí og fækkaði eignum um 15 frá lok apríl. Þar af eru 936 íbúðir í útleigu. Lang flestar eignir sjóðsins eru á Suðurnesjum, eða 824. Þá á sjóðurinn 379 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu.