Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði um 1,37% í viðskiptum dagsins og endaði vísitalan í 1.760,34 stigum. Nam heildarveltan á hlutabréfamörkuðum 5,77 milljörðum króna.

Hins vegar lækkaði aðalvísitala skuldabréfa, þó ekki nema um 0,14% og endaði hún í 1.225,86 stigum.

N1 og HB Grandi hækkuðu mikið

Ekkert bréf kauphallarinnar lækkaði á mörkuðum í dag en mesta hækkunin meðal fyrirtækja í Úrvalsvísitölunni var á bréfum N1, og nam húm 4,52% í 550 milljón króna viðskiptum. Fæst nú hvert bréf í félaginu á 83,20 krónur.

Bréf í HB Granda hækkuðu næst mest eða um 2,75% í þó ekki nema rétt tæplega 57 milljón króna viðskiptum. Fæst nú hvert bréf félagsins á 28,00 krónur.

Mest viðskipti með Icelandair, minnst með Össur

Langsamlega mestu viðskiptin voru með bréf Icelandair Group eða sem nemur rétt um 1,6 milljörðum króna. Gengi bréfanna hækkaði einnig mikið, eða um 2,16% og fæst nú hvert bréf félagsins á 26,00 krónur.

Langmesta hækkunin á bréfum á Aðalmarkaði utan Úrvalsvísitölunnar var á bréfum í Össur, hækkuðu þau um 7,37% í viðskiptum sem einungis námu 448 þúsund króna viðskiptum. Af þeim fyrirtækjum sem viðskipti voru með voru minnstu viðskiptin með bréfin í Össur.

Vísitölur Gamma

Hlutabréfavísitala Gamma hækkaði um 1,2% í dag í 5,8 milljarða viðskiptum.

Skuldabréfavísitala GAMMA lækkaði um 0,1% í dag í 11,2 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði lítillega í 0,4 milljarða viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði um 0,4% í 10,8 milljarða viðskiptum.