Ljósmyndir og auglýsingar um ferðamannalandið Ísland munu síðar í mánuðinum þekja tveggja hæða almenningsvagn í Peking. Sendiráð Íslands í Peking komst nýverið að samkomulagi við fjölmiðlafyrirtækið Viavom Outdoor Ltd. um að fyrirtækið færði vagninn í íslenskan búning í tengslum við ferðakaupstefnuna Beijing International Tourism Expo (BITE), sem haldin verður dagana 21. til 23. júní næstkomandi.

Í vefriti utanríkisráðuneytisins kemur fram að vagninn mun þjónusta sýningarsvæðið sem er gríðarlega stórt, en BITE er ein stærsta ferðakaupstefnan í Kína og sótt af þúsundum manna, bæði fagfólki úr ferðaþjónustu og almenningi.