„Það hlýtur að vera grundvallarkrafa að fá í hendur upplýsingar um virði þeirra eigna sem ætlað er að standa undir meginhluta þeirra krafna sem gerðar eru í þrotabú Landsbankans,“ segir Kristján Þór Júlíusson, alþingismaður og fulltrúi í fjárlaganefnd þingsins. Í samtali við Morgunblaðið segir hann það mikilvægt að almenningur hafi aðgang að sem bestum upplýsingum um stöðu eignasafns gamla Landsbanka til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave.

Kristján segir að fjárlaganefndin hafi fengið upplýsingar frá skilanefnd bankans en telur mat bankans á virði eignanna mjög varfærnislegt. Þá segir hann skilanefnd hafa krafist trúnaðar. „ Það hefur enginn opinber aðili látið vinna sjálfstætt mat á verðmæti eignasafnsins,“ segir Kristján.

Morgunblaðið hefur eftir Lárusi Blöndal, sem sat í Icesave-samninganefndinni fyrir hönd stjórnarandstöðunnar, að við samningana hafi nefndin tekið mjög varfærnislegan pól í hæðina við mat á virði eignasafnsins. Öðru fremur hafi verið stuðst við mat skilanefndar en þó gert ráð fyrir 10 milljarða króna ávöxtun eignasafnsins. „ Í mati okkar á kostnaði vegna samningsins gerðum við líka ráð fyrir að heildsöluinnlán yrðu samþykkt sem forgangskröfur af dómstólum, en bæði slitastjórnir Glitnis og Kaupþings úrskurðuðu slíkar kröfur sem almennar. Þá gáfum við okkur ekki að túlkun Ragnars Hall á lögunum um gjaldþrotaskipti myndi ná fram en það myndi þýða mun hagstæðari niðurstöðu ef það gerðist,“ segir Lárus.