Fyrsta umræðan um frumvarp til náttúrupassa kláraðist á Alþingi í gær og var málið sent til atvinnuveganefndar. Umræðan tók liðlega fimmtán og hálfa klukkustund og komu þar fram ýmis sjónarmið um frumvarpið.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, eru sammála um að í stað náttúrupassa ætti að fara blandaða leið gistinátta- eða komugjalda og bílastæðagjalda. Þetta kemur fram í skriflegum svörum við fyrirspurnum sem Viðskiptablaðið sendi á formenn stjórnarandstöðuflokka á Alþingi.

„Þróa má gistináttagjaldið sem er lágt núna, þrepaskipta því eftir ólíkum tegundum gistingar og fylgja þar með fordæmi flestra Evrópulanda. Þá teldi ég að vel mætti rukka til að mynda stöðugjöld á bílastæðum við náttúruperlur sem er í grundvallaratriðum ólíkt náttúrupassanum því að þá er maður sannarlega að borga fyrir þjónustu á staðnum. Enn fremur að skoða hugsanlega komugjöld yfir sumartímann á flugfargjöld. Saman gætu þessar leiðir skilað því fjármagni sem þarf inn til að tryggja vernd friðlýstra svæða og ferðamannastaða,“ segir Katrín Jakobsdóttir, spurð um hvað leið hún telji vera þá bestu í þessum efnum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .