Dregið hefur verulega úr áhuga almennings á hlutabréfum á síðustu árum og sést það best á því að á meðan mikill vöxtur og hækkun hefur orðið á íslenskum hlutabréfamarkaði hefur hlutabréfaeign Íslendinga dregist saman. Frá árinu 2000 hefur markaðsvirði íslenska hlutabréfamarkaðarins farið úr tæpum 400 milljörðum króna í 659 milljarða króna og þannig aukist um tvo þriðju. Á sama tíma hefur hlutabréfaeign almennings dregist saman úr 55 milljörðum króna í 47 milljarða eða um 15% eins og kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Minnkandi áhugi sést einnig á þeim fjölda sem fær greiddan arð af hlutabréfum en þeir voru 42.700 árið 2001 en voru komnir niður í 36.500 í fyrra. Mikið æði greip um sig árin 1999 og 2000 og fengu margir áhuga á hlutabréfum sökum mikilla hækkana á markaðnum. Eftir að hann tók að lækka á seinni hluta ársins 2000 og árinu 2001 urðu margir fráhverfir slíkum fjárfestingakostum. Því má halda fram að hlutabréfaáhugi hafi verið orðinn óhóflega mikill þegar æðið var mest og ákveðið jafnvægi hafi nú skapast.

Nánar í Viðskiptablaðinu í dag.