Bein hlutabréfaeign íslenskra heimila í skráðum félögum nemur alls 49 milljörðum króna eða um fjögur prósent af heildarmarkaðsvirði fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöllinni. Hlutfallið hefur ekki verið lægra í að minnsta kosti fimmtán ár að því er kemur fram í frétt Markaðarins, fylgiblaðs Fréttablaðsins .

Hlutabréfaeign íslenskra heimila hefur farið hlutfallslega lækkandi á síðastliðnum árum samhliða endurreisn íslensk hlutabréfamarkaðar. Árin fyrir fjármálaáfallið 2008 átti almenningur að jafnaði á bilinu 12 til 17 af markaðsvirði skráðra hlutabréfa. Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir í samtali við Fréttablaðið að það sé heilbrigðismerki að almenningur sé virkur í fjárfestingum á hlutabréfamarkaði og því sé þessi þróun áhyggjuefni.

Lífeyrissjóðir áttu í maí um 40 prósent allra skráðra hlutabréfa í Kauphöllinni. Hlutabréfaeign einkafjárfesta nemur um 20 prósent og hlutdeild erlendra fjárfesta er um 18 prósent.