Verslun
Verslun
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)
Á sama tíma og það dregur lítillega úr verðbólguvæntingum stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins væntir almenningur mun meiri verðbólgu. Þannig væntir almenningur þess nú að verðbólgan á næstu 12 mánuðum verði 5,0% samkvæmt niðurstöðum könnunar Capacent Gallup sem Seðlabanki Íslands birtir í Hagvísum bankans fyrir júnímánuð. Er þetta veruleg aukning frá því síðasta könnun var gerð, sem var í mars síðastliðnum, en þá bjóst almenningur við að árstaktur verðbólgu yrði 3,5% á næstu 12 mánuðum.  

Þetta segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka sem fjallar um málið í dag. „Á hinn bóginn dregur úr verðbólguvæntingum stjórnenda á sama tíma eins og á undan er getið og vænta þeir nú að verðbólgan á næstu 12 mánuðum verði 3,6% en í mars bjuggust þeir við að árstakturinn yrði 4,0%. Þess má geta að nýlega var fjallað um verðbólguvæntingar fyrirtækja í Morgunkorni Íslandsbanka sem sýndi einnig þróun í þá átt að verðbólguvæntingar stjórnenda hefðu minnkað. Var sú umfjöllun byggð á úttekt Samtaka Atvinnulífsins á þessari sömu könnun Capacent en þeir taka mið af meðaltali á sama tíma og Seðlabankinn notast við miðgildi og er því lítillegur munur á tölum þeirra. “

Þetta er í fyrsta sinn síðan á fjórða ársfjórðungi 2008 sem verðbólguvæntingar almennings aukast á milli ársfjórðunga.