Starfsgreinasamband Íslands leggur fram kröfugerð sína til Samtaka atvinnlífsins eftir hádegið í dag. Í kröfugerðinni er farið fram á 4% hækkun almennra launa 1. janúar 2008 og svo aftur 1. janúar 2009, auk hækkunar launataxta um 20 þúsund og svo 15 þúsund á sömu dagsetningum. Lágmarks tekjutrygging í dagvinnu hækki í sömu þrepum í 150 þúsund og síðan 165 þúsund.

Samtök atvinnulífsins hafa margítrekað lýst sig andvíg almennum hækkunum launa, nú síðast á opnum fulltrúaráðsfundi á Hótel Nordica, en í ályktun fundarins frá því í morgun segir að mikilvægt sé er að svigrúm verði nýtt til þess að bæta stöðu þeirra sem taka laun samkvæmt lágmarkstöxtum samninga og hafa einungis fengið almennar launahækkanir. Orðrétt segir: "Sú leið felur jafnframt í sér að þeir sem hafa notið launaskriðs fá ekki frekari hækkanir við gerð kjarasamninga að þessu sinni."

Með kröfugerð Starfsgreinasambandsins hefjast viðræður aðila vinnumarkaðarins af alvöru, og ljóst er að mjög ber í milli hvað varðar almennar launahækkanir. Aðilar hafa hins vegar verið samstiga í áætlunum um innleiðingu svokallaðrar launaþróunartryggingar, en kröfur um launahækkanir samhliða henni kunna að setja strik í reikninginn.

Ítarlega verður fjallað um kröfugerð Starfsgreinasambandsins til SA og ríkisins í úttekt Viðskiptablaðsins á morgun.