Víst þykir að notkun áls í bílaiðnaði muni aukast umtalsvert á næstu árum og er því spáð að álnotkun muni jafnvel tvöfaldast fyrir árið 2020. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samtökum álframleiðenda.

Þar segir að kröfur um að bílar séu sparneytnir fari sívaxandi og þá sérstaklega í Bandaríkjunum. „Að meðaltali verða notuð 150 kíló af áli í hverja bifreið sem framleidd verður fyrir Bandaríkjamarkað árið 2012, eða sem samsvarar um 5% aukningu frá 2009. Samkvæmt könnun sem gerð var meðal bandarískra bílaframleiðenda er gert ráð fyrir að árið 2025 verði álnotkun í bílaiðnaði að meðaltali um 250 kg, eða sem samsvarar tæplega 70% aukningu frá 2009.

Hvert kíló af áli sem notað er við smíði bifreiðar í stað stáls léttir bifreiðina að jafnaði um 1 kg. Miðað við ofangreindar áætlanir mun aukin notkun áls í bandarískum bílaiðnaði létta  bifreiðarnar um liðlega 100 kíló. Áætlað er að fyrir hver 100 kíló sem bifreið er létt um sparist 9 g af CO2 á hverja 100 ekna kílómetra,“ segir í tilkynningunni og er því bætt við að svipaðri þróun sé spáð í Evrópu og Asíu.

„Þessi þróun mun stuðla að umtalverðri aukningu í álnotkun í bílaiðnaði. Gert er ráð fyrir því að árið 2020 muni árleg notkun áls í bílaiðnaði nema nærri 14 milljónum tonna samanborið við um 7 milljónir tonna í dag. Heimsframleiðsla á áli mun í ár nema um 40 milljónum tonna,“ segir jafnframt í tilkynningunni.