Alcoa kynnir nú endurskoðuð drög að tillögu að matsáætlun vegna álvers á Bakka við Húsavík með framleiðslugetu upp á 250.000 til 346.000 tonn á ári. Frestur til að gera athugasemdir er til og með 6. ágúst næstkomandi, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Fyrstu drög að tillögu að matsáætlun vegna álvers á Bakka við Húsavík voru auglýst í júní síðastliðnum. Í þeim var miðað við að virkjanleg orka á svæðinu nægði fyrir 250.000 tonna álver.

Fram hefur komið að áhugi er á því innan Alcoa að nýta meiri orku, verði hún til staðar, og byggja svipað álver og Fjarðaál í Reyðarfirði. Hluti innsendra athugasemda við fyrri drögin, meðal annars frá sveitarfélögum í Þingeyjarsýslu, laut að framleiðslugetu álversins. Í ljósi þessa hefur verið ákveðið að hefja matsferlið á ný og meta umhverfisáhrif álvers með framleiðslugetu frá 250.000 tonnum á ári upp í 346.000 tonn, sem er sama framleiðslugeta og í álveri Alcoa Fjarðaáls.

Alcoa er framkvæmdaraðili verksins en mat á umhverfisáhrifum verður unnið af HRV Engineering.

Í tillögu að matsáætlun er fyrirhugaðri framkvæmd og framkvæmdasvæði lýst í stuttu máli og með hvaða hætti framkvæmdin samræmist skipulagi svæðisins. Greint er frá, á hvaða þætti framkvæmdar og umhverfis verður lögð mest áhersla í frummatsskýrslu. Einnig er fjallað um hvaða athuganir og rannsóknir eru fyrirhugaðar á vegum framkvæmdaraðila og yfirlit gefið yfir þær upplýsingar sem fyrir liggja og þegar hefur verið aflað. Þá verður fjallað um undirbúning framkvæmda og sett fram yfirlit yfir þá hagsmunaaðila og stofnanir sem samráð verður haft við í matsferlinu.