*

fimmtudagur, 18. júlí 2019
Innlent 14. september 2017 15:08

Álögurnar aukast um fimm milljarða

Þó ekki muni koma til hækkunar á virðisaukaskatti gerir ferðaþjónustan ráð fyrir miklum auknum álögum á næsta ári.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Gera má ráð fyrir að íslensk ferðaþjónusta greiði fimm milljörðum meira í ríkissjóð á næsta ári en ef ekki hefði komið til þær auknu álögur sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um verður þó fyrirhugaðri hækkun ferðaþjónustunnar í efra þrep virðisaukaskattsins frestað til ársbyrjunar 2019, en eins farið var yfir ítarlega í gær er ferðaþjónustan orðin langstærsta útflutningsgrein landsins.

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, Helga Árnadóttir sagði í samtali við blaðið að hækkanir sem koma til á næsta ári sýni að augljóst sé að ríkið hafi mikla trú á tekjuöflunarmöguleikum greinarinnar, en minni velvild þegar kemur að uppbyggingu hennar til framtíðar.

Hærri vöru-, eldsneytis- og gistináttagjöld

Í gögnum samtakanna kemur fram að á næsta ári þegar vörugujöld af bílaleigubílum færast í efsta flokk, mun ríkissjóður afla 3,5 milljarða af íslenskum bílaleigum. Er það 2,5 milljörðum meira en ella hefði verið að því er fram kemur í Morgunblaðinu.

Helga segir að hækkunin muni draga úr gæðum, öryggi og dreifingu ferðamannanna um landið. „Bílaleiguflotinn mun eldast við þetta og gæði hans minnka, það er öllum ljóst,“ segir Helga. Einnig verður þreföldun á gistináttagjaldinu þegar það hækkar úr 100 krónum í 300 krónur hver nótt, sem myndi hækka tekjurnar úr hálfum milljarð í 1,5 milljarða.

„Með þessu versnar samkeppnishæfni hótela enn frekar gagnvart ólöglegri íbúðagistingu sem hefur vaxið ásmegin,“ segir Helga sem bendir á að hún skili engum sköttum. „Við teljum að ríkið verði af um tveimur milljörðum króna árlega þar sem ekki hefur tekist að tryggja skattskil þeirra sem starfa í því sem kallað hefur verið skuggahagkerfi.“

Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um miklar hækkanir á eldsneytisgjaldi sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir en SAF segir þá hækkun hafa mikil áhrif á rekstrarumhverfi fyrirtækja í ferðaþjónustu og draga úr dreifingu ferðamanna um landið. Auk þess má nefna bílastæðagjöld í þjóðgörðum og ýmis aðstöðugjöld sem samanlagt skili fimm milljarða viðbótartekjum af ferðaþjónustunni á næsta fjárhagsári.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is