Bevís ehf. hefur falið Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hf. að annast formlegt ferli sem lýtur að mögulegri sölu á 100% hlut í Alp ehf., sem rekur eina af stærstu bílaleigum Íslands undir vörumerkjum Avis og Budget.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka.

Markaðshlutdeild félagsins Alp var áætluð um 25% á árinu 2009. Félagið hefur aðsetur í Reykjavík og Keflavík, ásamt því að reka leigustöðvar víðsvegar um landið. Bílafloti félagsins í dag stendur í um 800 bílum, en áætlanir gera ráð fyrir að bílaflotinn verði yfir 1.150 bílar á háannatíma í sumar. Félagið er  í dag að fullu í eigu Bevís ehf..

Í tilkynningunni kemur fram að söluferlið verður opið öllum áhugasömum fjárfestum sem uppfylla skilyrði til þess að geta talist fagfjárfestar samkvæmt lögum  um verðbréfaviðskipti, einstaklingum sem hafa verulegan fjárhagslegan styrk og viðeigandi þekkingu, auk fyrirtækja sem höfðu eiginfjárstöðu sem var hærri en sem nemur 300 m.kr. í árslok 2009.

Þá kemur fram að seljandi áskilji sér þó rétt til þess að takmarka aðgang að söluferlinu í þeim tilvikum þegar fyrir hendi eru lagalegar eða annarskonar takmarkanir á því að fjárfestir eignist ráðandi hlut í félaginu, svo sem vegna samkeppnisreglna.