Bílaleigan ALP sem er umboðsaðili AVIS og BUDGET á Íslandi hefur gengið frá samningum við bílaumboðin B&L og Ingvar Helgason (IH) um kaup á 900 nýjum bifreiðum að verðmæti tæplega 2 milljarða króna. Forsvarsmenn fyrirtækjanna telja að um sé að ræða stærstu bílakaup sem einn aðili hefur ráðist í á Íslandi.

ALP kaupir 440 nýja bíla frá B&L og eru þeir af gerðunum Hyundai, Renault og Land Rover.  Fyrr í mánuðinum var gengið frá samningi við IH um kaup á 460 nýjum bílum af gerðunum Nissan, Subaru og Opel.  ALP fær fyrstu bílana afhenta í apríl en búið verður að afhenda alla 900 bílana um miðjan júnímánuð.