Alpha Airports Group hefur rekið framkvæmdastjóra og fjármálastjóra fyrirtækisins í kjölfar athugasemda endurskoðenda félagsins á tilteknum viðskiptasamningum. Breskir fjölmiðlar hafa nafngreint Excel Airways, dótturfyrirtæki Avion Group, vegna tilkynningar frá Alpha Airports Group sem birt var í Kauphöllin í London þann 10. maí.

Í fréttum í tengslum við yfirlýsinguna kemur fram að um er að ræða ágreining um bókhaldslega meðferð á samningi milli bresku félaganna Excel Airways og Alpha sem gerður var í október 2005.

Í tilkynningu sem Avion Group sendi frá sér til Kauphallarinnar kemur fram að félagið veit ekki til þess að neitt óeðlilegt hafi átt sér stað við bókhaldslega meðferð viðskipta milli Excel Airways og Alpha. Á stjórnarfundi Avion Group, þann 15. maí, var ákveðið að fela KPMG Endurskoðun að rannsaka málið af hálfu Avion Group til að ganga úr skugga um að svo sé. Er þess að vænta að niðurstaða þess liggi fyrir í næstu viku. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins gengu félögin frá nýjum samstarfsamningi á síðasta ári og er það sá samningur sem endurskoðendur PwC gerðu athugasemd við. Excel Airways hafði sagt upp eldri samningi sínum en félagið kaupir mat fyrir farþega sína frá Alpha Airports Group.

Kevin Abbott hefur vikið úr starfi framkvæmdastjóra Alpha Airports Group en hann hafði gegnt því síðan 1997. Peter Williams hefur tekið við starfinu í staðinn. Um leið hefur Heather McRae hætt sem fjármálastjóri og hefur Tim Redburn verið ráðinn í staðinn.

Í frétt Financial Times kemur fram að Alpha Airports Group starfi með eðlilegum hætti og sé í nánu samstarfi við banka og viðskiptavini á meðan á rannsókn stendur.