Fyrirtæið Alphabet, sem meðal annars á og rekur Google, birti ársreikning fyrir fjórða ársfjórðung eftir lokun markaða í Bandaríkjunum og óhætt að segja að vel hafi gengið hjá fyrirtækinu.

Tekjur fyrirtækisins námu 21,3 milljörðum dala, eða um 2.773 milljörðum króna. Áætlaðar tekjur voru 20,8 milljarðar dala og var uppgjörin því yfir væntingum. Eftir þetta uppgjör er Alphabet verðmætasta skráða fyrirtæki í heimi, en markaðsvirði fyrirtækisins er nú um 558 milljarðar dala, eða 72.662 milljarðar króna.

Markaðsvirði fyrirtækisins jókst um 8% eftir birtingu uppgjörsins og samkvæmt frétt Techcrunch fór fyrirtækið framúr Apple sem var áður verðmætasta fyrirtækið, en markaðsvirði þess er um 535 milljarðar dala. Hlutabréf í Apple hafa lækkað um 19% á síðastliðnu ári á meðan hlutabréf í Alphabet hafa hækkað um 50% á sama tíma.