Snekkja sem eitt sinn var í eigu hins malasíska kaupsýslumannsins Jho Low. hefur verið sett á sölu í annað sinn á þessu ári. Snekkjan gengur undir nafninu Tranquility. Verðmiðinn nemur 200 milljónum dollara , sem samsvarar 25 milljörðum króna. Verðmiðinn hefur hækkað um 9 milljarða króna síðan hún var síðast til sölu.

Malasíska fyrirtækjasamstæðan Genting Group keypti snekkjuna í apríl af malasíska ríkinu á 126 milljónir dollara. Verðið var helmingi lægra en upphaflega greitt var fyrir snekkjuna.

Snekkjan var kyrrsett af yfirvöldum í Indónesíu árið 2018. Low er sakaður um að hafa stolið hundruð milljóna dollara úr malasíska þjóðarsjóðnum 1MDB. Hann hafi meðal annars nýtt sjóðinn til að kaupa snekkjuna, einkaþotu og málverk eftir Picasso. Þá fjármagnaði Low kvikmyndina Wolf of Wall Street um svikahrappinn Jordan Belfort sem leikinn var af Leonardo Di Caprio.

Rannsókn stendur yfir í sex löndum á 1MDB. Low er í felum, en talið er að hann sé búsettur í Kína. Hann hefur gefið út að hann hafi ekki gerst brotlegur við lög.

Snekkjan þykir dæmigerð fyrir þann lífsstíl sem Low lifði. Snekkjan er 92 metrar að lengd. Í snekkjunni er líkamsræktarstöð, flygill, sundlaug og gufubað svo eitthvað sé nefnt. Genting Group hefur hingað til leigt snekkjuna fyrir 1,2 milljónir dollara á viku. Fyrirsætan Kylie Jenner leigði hana til að mynda fyrir eigin afmælisveislu.