Rio Tinto, næststærsti álframleiðandi heims, mun sennilega loka álveri sem það rekur í Wales ásamt Kaiser Aluminium náist ekki samningar um áframhaldandi orkuafhendingu. Rætist þessi atburðarás yrði það enn eitt skrefið í þeirri þróun að evrópskum álverum sé lokað og eigendur þeirra byggi ný í ríkjum þar sem orkukostnaður er hlutfallslega minni. Í umfjöllun Bloomberg-fréttaveitunnar um málið er Ísland eitt nefnt á nafn í þessu samhengi.

Rio Tinto keypti kanadíska álfyrirtækið Alcan fyrir nokkru en sem kunnugt er rekur fyrirtækið álver í Straumsvík. Fyrir nokkrum árum lokaði kanadíska félagið álverum sínum í Sviss og Frakklandi í kjölfar þess að ekki tókst að tryggja raforkusamninga á viðunandi kjörum, en rafmagnskostnaður er að jafnaði um þriðjungur af heildarkostnaði álframleiðslu. Bloomberg hefur eftir Dick Evans, forstjóra Rio Tinto, að miðað við markaðsverð í Evrópu þá geti menn þurft að borga 100 Bandaríkjadali fyrir megawattstund á meðan að meðalverðið sem áliðnaðurinn í heiminum greiðir er á bilinu 30-40 dalir á stundina.

Álverið sem um ræðir í Wales er með 148 þúsund tonna framleiðslugetu. Raforkan kemur frá kjarnorkuverinu í Wylfa og rennur afhendingarsamningurinn út í september á næsta ári. Ljóst er að Rio Tinto getur ekki reitt sig á áframhaldandi orku frá Wylfa þar sem að kjarnorkuverinu verður lokað í árslok 2010. Bloomberg hefur eftir Evans að álverið verði starfrækt áfram náist samningar um raforku en hann bendir hinsvegar á að þróunin hefur undanfarið verið með þeim hætti að álverum hafi verið lokað í Evrópu í kjölfar þess að orkusamningar renna út.