Rússneska álfyrirtækið United Co. Rusal er í vanda vegna viðskiptabanns Bandaríkjanna, fjölmargra Evrópuríkja og annarra ríkja á vörur á frá Rússlandi. Wall Street Journal greinir frá þessu.

Rusal er næststærsta álfyrirtæki heims. Á síðasta ári framleiddi Rusal 3,7 milljónir tonna af áli eða fjórfalt meira en íslensku álverin framleiddu samtals. Staðan í dag er sú að vöruhús Rusal eru að fyllast af áli, meðal annars vegna þess að London Metal Exchange neitar að geyma ál frá fyrirtækinu í sínum vörugeymslum.

Vegna viðskiptabannsins eru fáir mögulegir kaupendur. Í frétt Wall Street Journal er talið líklegast að rússnesk stjórnvöld kaupi álið til að forða fyrirtækinu frá gjaldþroti. Einnig er talið mögulegt að Kínverjar kaupi eitthvað. Rússnesk stjórnvöld hafa einu sinni bjargað fyrirtækinu frá gjaldþroti.

Rusal er skráð í kauphöllinni í Hong Kong . Hlutabréf í fyrirtækinu hafa hríðfallið. Í byrjun mánaðarins stóð gengi bréfanna í tæplega 5 HKD en í gær var það komið niður í 1,6. Lækkunina má aðallega rekja til þess að 6. apríl setti Bandaríkin viðskiptabann á Oleg Deripaska, stjórnarformann Rusal .