„Þegar Ljúflingsverslunin opnar dyrnar er hún staðsett í Álfheimum 2-4 og einungis um helgar,“ segir Ragnhildur Anna Jónsdóttir, eigandi Ljúflingsverzlunarinnar, en meðeigandi Ragnhildar Önnu er Heiður Reynisdóttir eigandi Íslenzka pappírsfélagsins.

Ragnhildur Anna er einnig eigandi Jónsdóttir & co. sem sérhæfir sig í ungbarnasamfellum, sérmerktum koddaverum og auk þess flytur hún inn írska gjafavöru sem heitir AVOCA. Heiður selur umhverfisvænan pappír, kort, dagatöl og rör og margt fleira. Saman poppa þær upp með búðina sem þær kalla Ljúflingsverslun.

„Á föstudagskvöldi setjum við litlu búðina upp, stillum í gluggann og gerum þetta þannig að það er spennandi að koma í heimsókn. Við reynum að kappkosta við að það sé alltaf eitthvað nýtt og forvitnilegt í hillunum í hvert skipti. Þegar maður rekur verslun sem poppar upp annað slagið úr alfaraleið þarf að leggja extra á sig svo viðskiptavinurinn hafi hug á að koma í heimsókn. Þess vegna bökum við fyrir hverja opnun og reynum stundum að gleðja viðskiptavini með gjöfum líkt og verður við næstu opnun afmælishelgina 2.-3. nóvember þegar við höldum upp á tveggja ára afmælið okkar og leysum alla viðskiptavini út með litlum gjöfum.“

Nánar er rætt við Ragnhildi Önnu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .