Franski iðnaðarrisinn Alstom hefur samið við íslenska rafvörufyrirtækið Ískraft um milligöngu við sölu á framleiðsluvörum fyrirtækisins hingað til lands. Aðallega verður um að ræða háspennuefni ýmis konar, spenna og tengivirki en Alstom framleiðir allt frá hraðlestum og vindmyllum til kjarnorkuvera og jarðvarmavirkjana. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Að sögn Jón Sverris Sverrissonar, framkvæmdastjóra Ískraft, líta stjórnendur Alstom meðal annars til þess að framundan séu fjölmörg verkefni í orkufrekum iðnaði á Íslandi. Einnig eru fyrirsjáanleg nokkur verkefni til styrkingar á raforkukerfi Íslands . Hann segir Alstom vera  risa á þessum markaði og þetta geri Ískrafti kleift að bjóða í enn stærri verkefni fyrir aðila eins og Landsnet, Landsvirkjun, Rarik og í raun alla orkufreka starfsemi.

Alstom hefur verið mikið til umfjöllunar á síðum viðskiptablaða undanfarið en fyrirtækið samþykkti nýlega yfirtökutilboð General Electric sem hafði betur eftir mikla keppni við Siemens AG. Málið kom meðal annars til kasta Frakklandsforseta en Alstom er einn stærsti vinnuveitandi í Frakklandi en um 96 þúsund manns vinna hjá þeim  á heimsvísu. Yfirtökutilboð General Electric nemur 16,9 milljörðum bandaríkjadala en ársvelta Alstom er í kringum 28,5  milljarð bandaríkjadala.

Ískraft er einn af stærstu aðilum  á rafvörumarkaði hér á landi en velta fyrirtækisins nam  tæpum tveimur milljörðum  í fyrra. Fyrirtækið var stofnað árið 1975 og starfsmenn eru 26 talsins. Fyrirtækið er með starfsemi á fimm stöðum um landið: Kópavogi, Akureyri, Egilsstöðum, Selfossi og í Reykjanesbæ.

Ískraft er í eigu Húsasmiðjunnar og forstjóri hennar Árni Stefánsson segir að samningurinn við Alstom sé mikilvægur liður í að styrkja þennan hluta reksturs samstæðunnar. Árni segir þetta koma á góðum tíma. Hann segir þá sjá að það eru fleiri stór verkefni að færast af teikniborðinu og yfir á framkvæmdastig, svo sem kísilver og þegir hort er til framtíðar eru ýmsir hlutir á umræðu- og rannsóknarstigi eins og vindmyllur, olíuvinnsla, sæstrengir  og fleira sem kallar á aukna sérhæfingu birgja hér á landi. Hann segir erfitt að spá hvað af þessum verkefnum verði að veruleika en þeir sjái fram á tækifæri á þessu sviði á næstu árum.