Fjórtán þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að fordæma pyndingar leyniþjónustu Bandaríkjanna. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar en að henni standa einnig þrettán aðrir þingmenn frá Pírötum, Samfylkingunni, Bjartri framtíð og Vinstri grænum.

Er þannig lagt til að Alþingi álykti að fordæma harðlega pyndingar sem leyniþjónusta Bandaríkjanna hefur staðið fyrir og bandarísk stjórnvöld látið viðgangast frá hryðjuverkaárásunum 11. september 2011.

Hrottalegar pyndingar

Í greinargerð með tillögunni segir að öldungadeild Bandaríkjaþings hafi nýlega birt skýrslu sem lýsi hrottalegum pyndingum á mönnum sem fangelsaðir voru í kjölfar hryðjuverkaárásanna 11. september 2011 og framkvæmdar hafa verið undir stjórn CIA. Í skýrslunni sé lýst hræðilegri meðferð á fólki á öllum aldri af báðum kynjum og ýmsu þjóðerni.

Meðal annars sé því lýst að föngum hafi verið haldið vakandi, jafvel í heila viku, stundum standandi og stundum með handleggi hlekkjaða fyrir ofan höfuðið.

Gefinn matur í gegnum endaþarm

Einnig er tekið dæmi í greinargerðinni um fanga að nafni Majid Khan sem var gefinn matur í gegnum endaþarm; hummus, pastasósu, hnetum og rúsínum hafi verið maukað saman og troðið inn um endaþarm hans.

Þá hafi öðrum fanga, Gul Rahman, verið haldið vakandi í tvo sólarhringa og látinn þola ærandi hávaða í algjöru myrkri og einangrun. Auk þess hafi hann verið settur í kaldar sturtur og hlekkjaður við vegg í stellingu sem neyddi hann til að leggjast á kalt gólf. Hann hafi á endanum látist úr ofkælingu. Fleiri dæmi eru einnig nefnd í greinargerðinni.

Alþingi fordæmi grimmdarverkin

Flutningsmenn tillögunnar segja afar brýnt að sú hræðilega meðferð á fólki sem lýst sé í skýrslunni verði fordæmd um heim allan og mælast til þess að Alþingi Íslendinga bregðist skjótt við og fordæmi þessi grimmdarverk með formlegum og opinberum hætti. Alþingi hafi áður fordæmt mannréttindabrot og ómannúðlega meðferð á föngum í búðum Bandaríkjamanna við Guantanamo-flóa á Kúbu og með tillögunni sé lagt til að slík fordæming verði ítrekuð í ljósi nýrra upplýsinga.