Þingmenn risu úr sætum við upphaf þingfundar í dag til heiðurs Nelson Mandela, sem lést á fimmtudag í síðustu viku.

„Ég hygg að það sé ekki ofmælt að í hugum okkar margra sé hann merkasti og virðingarverðasti einstaklingur sem við höfum verið með á dögum og eigum jafnvel nokkurn tímann eftir að verða samtíða,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon þingmaður VG þegar hann hvatti þingmenn til að rísa úr sætum.

„Mér finnst við hæfi að hér úr ræðustól Alþingis Íslendinga sé minning hans heiðuð og honum þakkað fyrir að vera ekki aðeins Suður-Afríku sú gæfa sem hann var heldur heiminum öllum sú fyrirmynd mannvisku og réttlætisboðskapar sem raun bar vitni,“ sagði Steingrímur.