Í gær urðu tvö frumvörp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og jafnréttismálaráðherra, að lögum frá Alþingi í gær. Frumvörpin snúast um jafna meðferð á vinnumarkaði og jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá Velferðarráðuneytinu .

Í lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði er kveðið skýrt á um bann við mismunun fólks á vinnumarkaði, hvort heldur beina eða óbeina, á grundvelli kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar.

Í tilkynningunni kemur fram að þetta þyki mikilvægt til að stuðla að virkri þátttöku sem flestra á vinnumarkaði en atvinnuþátttaka er talin ein þýðingarmesta leiðin til að koma í veg fyrir félagslega einangrun og fátækt. Við lagasetninguna var höfð hliðsjón af tilskipun Evrópuráðsins 2000/78/EB um almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífinu.

Með lögum um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna er kveðið á um meginreglu sem snýst um jafna meðferð einstaklinga á öllum sviðum samfélagsins, fyrir utan vinnumarkað. Við lagasetninguna var höfð hliðsjón af efni tilskipunar 2000/43/EB um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna.

Með skýru banni við mismunun er ætlunin að stuðla að virkri þátttöku sem flestra í íslensku samfélagi óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og koma í veg fyrir félagslega einangrun einstaklinga af sömu ástæðum. Markmiðið er einnig að sporna við því að skoðanir á mismunandi verðleikum kynþátta festi rætur hér á landi.