Alþingi samþykkti í gær þingsályktun um fríverslunarsamning við Kína. Samkvæmt þingsályktunartillögunni er ríkisstjórninni veitt heimild til þess að fullgilda samninginn sem var undirritaður i apríl. Samningurinn var samþykktur með miklum meirihluta, eða 56 atkvæðum gegn tveimur. Þrír þingmenn sátu hjá.

Líkt og greint var frá undirrituðu Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra, og Gao Hucheng, viðskiptaráðherra Kína, fríverslunarsamninginn í Peking að viðstöddum forsætisráðherrum ríkjanna. Þetta er fyrsti fríverslunarsamningur sem Evrópuríki gerir við Kína og veitir íslenskum fyrirtækjum og útflutningsgreinum forskot á ört vaxandi Kínamarkað.