Meirihluti fjárlaganefndar sagði í raun pass við fjármálaáætluninni  að mati Hagfræðideildar Landsbankans. Í nýrri Hagsjá Hagfræðideildarinnar kemur fram að áhyggjur hafa komið fram af hálfu þingmanna, og meirihluta fjárlaganefndar, um að nýtt umhverfi opinberra fjármála verði til þess að áhrif Alþingis á fjárlagagerð minnki.

„Þar komi m.a. til að Alþingi hafi ekki þau tæki sem þarf til að meta upplýsingar með fullnægjandi hætti og geti þannig ekki veitt framkvæmdavaldinu nauðsynlegt aðhald. Það er einungis Alþingi sem á að hafa formlegt fjárstjórnarvald, en eins og staðan er nú virðist valdið í raun af skornum skammti. Fjárlaganefnd segir pass og gefur framkvæmdavaldinu sjálfstjórnarvald um stefnu og tilhögun opinberra fjármála næstu árin. Það verður athyglisvert að sjá hvort fjárlagafrumvarp ársins 2018 verði nákvæmlega í anda fjármálaáætlunar, eins og ætlast er til,“ segir í greiningunni.

Skattahækkun á ferðaþjónustuna verður að veruleika

Umsagnir frá 200 aðilum bárust um áætlunina. Nálega þriðjungur þeirra umsagna voru frá aðilum tengdum ferðaþjónustu, en þar voru tillögur ríkisstjórnarinnar um að ferðaþjónustutengd starfsemi yrði færð upp um skattþrep um mitt næsta ár. „Með samþykkt fjármálaætlunar verður ekki betur séð en sú breyting komi til framkvæmda,“ tekur Hagfræðideildin fram.

Enn fremur benda greiningaraðilarnir á að fjármálaráð hafi bent á að aðhald hafi minnkað Þannig virðist sem stjórnvöld séu að stíga lausar á bensíngjöfina þegar þau ættu að vera að bremsa og að sú slökun á aðhaldi ríkisfjármála sem hefur átt sér stað á undanförnum árum muni halda áfram á tímabili áætlunarinnar,“ kom fram í álitsgerð fjármálaráðs.

„Skoðunin byggir á því mati Seðlabanka Íslands að sértækar aðgerðir í fjárlögum 2017 hafi numið um 0,8% af vergri landsframleiðslu fyrir árið 2017. Til að halda aðhaldsstigi óbreyttu frá fyrra ári hefði þurft að auka afgang fjárlaga um sem nemur 0,5% af landsframleiðslu, í stað þess að halda óbreyttu stigi,“ segir í greiningu Landsbankans. Jafnframt bendir Hagfræðideildin á að samkvæmt tölum Seðlabankans hefur breyting á hagsveifluleiðréttum frumjöfnuði ríkissjóðs verið neikvæð síðustu tvö ár og verður það einnig í ár. „Bankinn telur að áhrif slökunar á aðhaldsstigi ríkisfjármála séu m.a. að bæði verðbólga og vaxtastig hafi verið og verði hærri en ella. T.d. verði vaxtastig 0,7% hærra í ár en ella hefði orðið og verðbólga 0,2 prósentustigum meiri. Svipað verði svo uppi á teningnum 2018,“ segir þar.