*

mánudagur, 27. september 2021
Innlent 18. júlí 2021 11:28

Alþingis að fylla í götin

„Að okkar mati væri það afar vont og til þess fallið að bera skugga á það ef það kemur í ljós að einhverjir aðilar hafi misnotað þessa leið.“

Jóhann Óli Eiðsson
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF.
Þröstur Njálsson

Reynsla er að fást af lögum um greiðsluskjól sem samþykkt voru á síðasta ári ætluð til að hjálpa félögum í þröngri stöðu að komast í gegnum faraldurinn. Greiðsluskjólið gildir í allt að ár og því eru fyrstu félögin sem fóru í greiðsluskjól að komast út úr því og þurfa því að ná saman við sína kröfuhafa.

Viðskiptablaðið fjallaði í vikunni um mál Allrahanda þar sem ellefu kröfuhafar hafa lagst gegn því að nauðasamningur félagsins fáist samþykktur.

Sjá einnig: Segir ekki hættu á kennitöluflakki

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), segir að samtökin geti ekki tjáð sig um einstök mál. Almenn afstaða þeirra gagnvart kennitöluflakki og óheiðarlegum viðskiptaháttum sé aftur á móti alveg skýr, enda hafi þau lagt til skilvirkara eftirlit og stutt þær aðgerðir sem stjórnvöld, í samstarfi við ASÍ og atvinnulífið, hafi lagt til, til að koma í veg fyrir slíkt.

„Við náttúrulega lítum svo á að greiðsluskjólið hafi reynst afar vel og verið mikilvæg viðbót til að taka á þessum tímabundna vanda. Að okkar mati væri það afar vont og til þess fallið að bera skugga á það ef það kemur í ljós að einhverjir aðilar hafi misnotað þessa leið. Ég vona að það séu litlar líkur á að slíkt komi upp úr dúrnum,“ segir Jóhannes Þór.

Sjá einnig: Klukkan tifar í greiðsluskjóli

Samkvæmt greiðsluskjólslögunum er hægt að slá kröfum á frest í allt að þrjú ár. En heimildir skiptastjóra til að krefjast riftunar krafna, það er fari félag í þrot að skjóli loknu, ná almennt ekki lengra aftur en tvö ár.

„Það er auðvitað ákveðin hætta þegar ríkið grípur inn í hinn almenna gang viðskipta, til að mynda vegna áfalla, að það myndist pollar í lögunum. Að okkar mati er þarna ákveðinn lapsus og betur hefði farið á því hafa samræmi þar á milli. Með því er hægt að loka fyrir að þeir sem á annað borð hafa vilja til að misnota leiðina nýti sér það. En slíkt er eitthvað fyrir pólitíkina og Alþingi að takast á við,“ segir Jóhannes.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: greiðsluskjól