Á lokaspretti Alþingis í gærkvöldi var samþykkt að breyta lögum um þingsköp. Samkvæmt lagafrumvarpinu má kveða á um það í reglum forsætisnefndar um þingfararkostnað að ákvarðanir kjararáðs um almenn starfskjör þeirra sem undir ráðið falla skuli einnig gilda um alþingismenn eftir því sem við getur átt.

„Með breytingunni er lagt til að í almennum reglum forsætisnefndar um þingfararkostnað megi ákveða að alþingismenn skuli eiga rétt á að fá greiddan ýmsan kostnað, svo sem við kaup á gleraugum eða heyrnartækjum, krabbameinsleit, líkamsrækt o.fl.," segir í greinargerð með frumvarpinu.

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í stuttum umræðum um málið í gærkvöldi að ekkert mat lægi fyrir um kostnað vegna þessa. Á almennum vinnumarkaði legðu atvinnurekendur og launþegar framlög í sjóði á vegum stéttarfélaga sem kæmu til móts við kostnað félagsmanna. Hins vegar stæði ekki til að stofna sérstakan sjóð á Alþingi heldur ætti ríkissjóður að mæta öllum kostnaði.

Birgir Ármannsson, sem flutti málið í fjarveru Árna Þórs Sigurðssonar, þingmanns Vinstri grænna, sagði þennan lið fela í sér óverulegan kostnað. Meiru máli skipti að nú væri hægt samkvæmt frumvarpinu að kalla inn varamann í viku en ekki tvær eins og áður. Það hefði oft þýtt að þingmenn, sem þurftu að kalla inn varamann til að atkvæðavægi raskaðist ekki á þingi, væru tekjulausir eftir að erindum þeirra, t.d. erlendis, lyki eftir fáeina daga. Afganginn af tímanum útaf þingi fengu þeir ekki greitt.