Myglusveppur kom upp í tveimur húsum Alþingis í byrjun árs. Annað þeirra var gamalt hús við Kirkjustræti en hitt tengibygging við Blöndahlshús við hliðina þar sem fjármálaskrifstofa þingsins er til húsa. Þá fannst sveppur sömuleiðis á skrifstofum Alþingis í Austurstræti. Þetta olli því að þingmenn og hópur starfsmanna Alþingis hefur glímt við heilsufarsvanda. Þingflokkur Pírata þurfti tímabundið að flytja skrifstofur sínar á milli hæða.

Jón Þór Ólafsson pírati segir í samtali við Fréttablaðið að hann hafi fundið fyrir öndunarerfiðleikum, sem raktar voru beint til eitrunar frá myglunni á skrifstofunni.

Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag. Þar segir að ráðist hafi verið í viðgerðir og finni starfsfólkið ekki lengur fyrir einkennum veikindanna. Einkennin eru þreyta, augnþurrkur, beinverkir og fleira.