*

sunnudagur, 20. júní 2021
Innlent 2. mars 2017 12:36

Alþingismenn á pari við launavísitölu

Með tilkomu lækkunar starfstengdrar greiðslna til þingmanna segir Fjármálaráðuneytið launakjör alþingismanna í takt við launavísitölu.

Ritstjórn
vb.is

Helsta niðurstaða fjármálaráðuneytisins á samantekt á gögnum Hagstofunnar, að viðbættum upplýsingum um áhrif ákvörðunar forsætisnefndar Alþingis um að lækka starfstengdar greiðslur til þingmanna, er sú að þróun launa þingmanna er svipuð og hjá öðrum hópum á vinnumarkaði, borið saman við árið 2006.

Með lækkuninni var ferðakostnaður lækkaður um 54 þúsund krónur sem jafna megi til um 100 þúsund króna í launagreiðslu því greiðslan er undanþegin skatti. Síðan var starfskostnaður lækkaður um 50 þúsund krónur til viðbótar.

Segir í frétt fjármálaráðuneytisins um málið að litlu skipti hvort litið sé til grunnlauna, reglulegra launa eða heildarlauna þegar launaþróunin sé skoðuð, með lækkun þessara starfstengdu greiðslna sé þróun heildarlaunakjara þingmanna mjög áþekk launaþróun annarra hópa á vinnumarkaði.

Launaþróun alþingismanna frá nóvember 2006 og til loka tímabilsins sé nær alveg sú sama og þróun launavísitölunnar.

Þó er tekið fram í fréttinni að við mat á launaþróun verði að hafa í huga að heildarlaun ýmissa hópa geti hafa þróast með öðrum hætti en launavísitalan sjálf, til að mynda þeirra hópa sem fengu minni yfirvinnu eftir hrun en fyrir og svo framvegis.