Þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi hafa lagt fram þingsályktunartillögu um siðareglur fyrir alþingismenn. Í siðareglunum eru settar fram ýmsar meginreglur, svo sem að þingmenn sinni störfum sínum í þágu almennings og kasti ekki rýrð á Alþingi.

Þá eru settar ítarlegri reglur um hagsmunaárekstra og –tengsl þingmanna. „Þingmenn skulu við störf sín forðast árekstra milli almannahagsmuna og fjárhagslegra hagsmuna þeirra eða annarra hagsmuna sem eru faglegir, persónulegir eða tengdir fjölskyldu þeirra, hvort sem þeir eru raunverulegir eða hugsanlegir,“ segir til að mynda í siðareglunum.

Af þessu tilefni verður skipuð þriggja manna siðareglunefnd, sem mun hafa eftirlit með því hvort hátterni þingmanna samræmist siðareglunum.