Þróunarríki ættu að búa sig undir lélegan hagvöxt og erfiðleikatíma samkvæmt skýrslu Alþjóðabankans. Í skýrslunni segir að búast megi við löngu tímabili óstöðugleika í heimshagkerfinu á meðan skuldakreppa evruríkjanna heldur áfram að versna. Er sagt frá þessu á vefsíðu BBC.

Er í skýrslunni gert ráð fyrir því að hagvöxtur þróunarríkja verði um 5,3% í ár, en hann var 6,1% í fyrra. Hvetur bankinn leiðtoga þessara ríkja til að grípa til aðgerða til að tryggja langvarandi hagvöxt. Til að ná þessu marki ættu ríkin að einbeita sér að því að auka framleiðni í hagkerfum sínum og fjárfesta í innviðum sinna hagkerfa í stað þess að bregðast við daglegum breytingum í fjárfestingaumhverfi heimsins.