Samið hefur verið við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands um ritstjórn og umsjón úttektar á stöðu aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Alþýðusamband Íslands, Félag atvinnurekenda, Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands tilkynntu í september að þau hygðust standa fyrir úttekt á aðildarviðræðum við Evrópusambandið, þróun ESB og valkostum í efnahagsmálum.

„Markmið verkefnisins er að leggja mat á stöðu aðildarviðræðna Íslands og Evrópusambandsins, að greina þau álitaefni sem eru til staðar og þá kosti sem eru í stöðunni. Þá verður fjallað um þróun Evrópusambandsins síðan aðildarviðræðurnar hófust með sérstakri áherslu á gjaldmiðilssamstarfið. Sérstakt mat verður einnig lagt á hvernig hefja mætti aðildarviðræður við ESB að nýju ef vilji stendur til þess. Þá verður lagt mat á EES samninginn og þá möguleika og takmarkanir sem í honum felast,“ segir í tilkynningu um samninginn við Alþjóðamálastofnun.

Þá segir að Alþjóðamálastofnun muni nýta breiðan hóp fagaðila með sérþekkingu á þeim ólíku sviðum sem tekin verða til skoðunar í úttektinni. Gert er ráð fyrir að vinnan fari fram á næstu fimm mánuðum og verður úttektin kynnt opinberlega  næsta vor.