Alþjóðlegu matvælarisarnir PepsiCo og Nestlé hafa á síðustu árum verið meðal viðskiptavina Matís og keypt tilteknar rannsóknir af fyrirtækinu. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu.

Hörður G. Kristinsson, rannsóknastjóri Matís, segir í samtali við Morgunblaðið að erlend viðskipti hafi aukist síðustu ár og skapi fjölda ársverka fyrir félagið. Hann segist þó að mestu bundinn trúnaði um samstarfið við PepsiCo. „Þetta eru nokkur verkefni fyrir þá á sviði matvæla- og lífefnafræði, en Ísland og hráefni sem finna má í íslenskri náttúru er nokkuð sem þeir og fleiri hafa mikinn áhuga á.“

Nestlé greiddi svo Matís fyrir doktorsrannsóknir á frystum fiski. Hörður segir ársstörfin sem þetta skapi skipta fyrirtækið miklu máli, en auk þess stuðli það að framþróun að vinna með stórum alþjóðlegum fyrirtækjum. Um þriðjungur tekna Matís kemur úr erlendu samstarfi eða um 35% miðað við rekstraráætlun ársins 2014.