Alþjóðalega taekwondo-sambandið hefur valið OZ fyrir stafræna dreifingu og sölu beinna útsendinga frá öllum helstu viðburðum á þeirra vegum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá OZ.

Alls eru yfir 200 aðildarsambönd hluti af Alþjóða taekwondo-sambandinu, sem nú fá nýtt tækifæri til að fjármagna kvikmyndatöku og framleiðslu frá helstu íþróttamótum. Virkir iðkendur taekwondo eru yfir átta milljónir um heim allan, en bardagaíþróttin er hvað vinsælust í Suður-Kóreu, Bandaríkjunum og í Bretlandi.

Fyrsti viðburðurinn sem nýtir tækni OZ verður heimsmeistaramótið í Taekwondo 9. desember næstkomandi.

„Hingað til þá hefur Alþjóðlega taekwondo-sambandið verið að nota YouTube til að sýna frá stórmótum innan greinarinnar. Það hefur þó ekki hjálpað sambandinu í fjármögnun á framleiðslu efnis. Það er ein stærsta ástæða íþróttasambandsins að færa útsendingar sínar yfir á OZ. Nú getur sambandið boðið uppá sölu á dagspössum eða mánaðaráskriftum,“ er haft eftir Guðjóni Má Guðjónssyni, framkvæmdastjóra OZ í fréttatilkynningu.