Álverð hefur verið að hækka að undanförnu og er nú komið yfir 2.000 dollara á tonnið. Verð á áli hefur sveiflast gríðarlega á undanförnum tveimur árum. Hæst fór það í 3.300 dollara í júlí 2008.

Í byrjun árs 2009 var það komið í 1.200 dollara eftir að hafa hrunið, samhliða efnahagsþrengingunum haustið 2008. Síðan hækkaði það mikið, fór á fjórum mánuðum í um 1.800 dollara. Síðan hefur það rokkað milli 1.800 og 2.400 dollara og er nú, eins og áður segir, í 2.000 dollurum. Á þessu tímabili hefur framboðið lítið sem ekkert minnkað samkvæmt upplýsingum London Metal Exchange. Nú eru um 4,4 milljónir tonna af áli óseld, sem jafngildir um fimmfaldri ársframleiðslu hér á landi.