Altria, móðurfélag sígarettu framleiðandans Philip Morris, hefur lækkað mat sitt á fjárfestingu sinni í rafrettuframleiðandanum Juul um 4,5 milljarða Bandaríkjadala sem er um 560 milljarðar íslenskra króna. Ástæðan er sögð vera vegna óvissu um aukið eftirlit á rafrettum. Þetta kemur fram á vef Financial Times.

Altria sem keypti um 35% hlut í Juul í desember síðastliðinn fyrir um 13 milljarða dala mat fjárfestu sína á 12,8 milljarða í lok júlí. Hins vegar er talið að heilsufarsáhrif rafretta hafi verið vanmetin sem auki líkurnar á því að matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna fjarlægi rafreykingar með bragðbætingu. Áður hafi rafrettur verið kynntar sem betri kostur en hefðbundnar reykingar en aukin dauðsföll og komur á sjúkrahús hafa dregið þá ályktun í vafa. Því hefur félagið neyðst til þess að lækka mat sitt á fjárfestingunni.

Hreinar tekjur Altria á þriðja ársfjórðungi námu 5,4 milljörðum dala sem er um 2,3% hækkun samanborið við sama tímabil í fyrra. Hagnaður félagsins fyrir skatt að niðurfærslu Juul undanskilinni nam 2,4 milljörðum dala, en var neikvæður um 2,1 milljarða vegna hennar. Endanlegt tap félagsins eftir skatta var því 2,6 milljarðar dollara.