Á síðasta ári námu útflutningsverðmæti álveranna hér á landi 181 milljarði króna, eða því sem nemur 33,9% af heildarvöruútflutningi Íslands. Af útflutningsverðmætum ársins fóru 80 milljarðar af því í innlend útgjöld, en raforkukaupin námu rúmum 36 milljörðum ef miðað er við uppgefið meðalverð Landsvirkjunar að því er haft er eftir Pétri Blöndal framkvæmdastjóra Samáls í Vísi .

Töluverð lækkun var frá árinu 2015 þegar verðmæti útflutningsins námu 237 milljörðum, sem er tæplega 24% lækkun á milli ára. „[M]unar þar mestu um styrkingu krónunnar og lægra álverð,“ segir Pétur en í dag verður ársfundur þessara samtaka álframleiðanda hér á landi.

„Álverin keyptu vörur og þjónustu af hundruðum fyrirtækja fyrir 22,5 milljarða og er þá raforka undanskilin. Það er til marks um gróskuna í álklasanum, en í þeim hópi eru fyrirtæki á borð við verkfræðistofur, vélsmiðjur, málmsteypur og skipafélög. Þar á meðal eru fyrirtæki sem flytja út vörur og þjónustu til álvera um allan heim.“