Fjármál Bandaríkjahers eru í svo miklu rugli að herinn gerði sig sekan um billjóna dala bókhaldsbrellur til að skapa þá tálsýn að allt væri í lagi.

Eftirlitsaðili varnarmálaráðuneytisins greindi frá því í skýrslu í júní að herinn hefði logið til um 2,8 billjónir dala (2.800 milljarða dala) á einvörðungu fyrsta ársfjórðungi 2015. Í heildina laug herinn til um 6,5 billjónir dala á árinu. Annað hvort skorti herinn kvittanir eða nótur til að standa að baki tölunum eða þær voru einfaldlega skáldaðar.

Ársreikningar hersins fyrir árið 2015 eru því gríðarlega misvísandi að sögn skýrslunnar. Í raun væru þeir gagnslausir og ætti varnarmálaráðuneytið ekki að taka neitt tillit til þeirra í áætlanagerð.

Talnaleikir hersins eru einungis eitt af mörgum dæmum um bókhaldsvandræði innan varnamálaráðuneytisins undanfarna áratugi. Í skýrslunni er rifjað upp hvernig ráðuneytið falsaði bókhald sitt á stórum skala til að láta það ganga upp. Þess vegna er engin leið til að vita hvernig varnarmálaráðuneytið - sem fær langstærstan hluta af fjárlögum hvers árs - eyðir peningum skattborgara.

Í nýju skýrslunni er einblínt á meginsjóð hersins (e. General Fund), sem er sá stærri af tveimur helstu reikningum hans. Árið 2015 var eign sjóðsins sögð nema 282,6 milljörðum dala. Herinn týndi eða hélt ekki utan um nauðsynleg gögn og mörg gagnanna voru í þokkabót ónákvæm.

„Hver er peningurinn að fara? Enginn veit það,“ sagði Franklin Spinney, fyrrum hernaðargreinandi fyrir Pentagon og einn harðasti gagnrýnandi skipulagningar varnarmálaráðuneytisins.

Ítarlegar er fjallað um málið á vef Reuters .