Siðanefnd Ríkisútvarpsins hefur komist að þeirri niðurstöðu að Helgi Seljan, fréttamaður Kveiks, hafi gerst uppvís að alvarlegum brotum gegn siðareglum með því að gefa upp persónulega afstöðu sína í afmörkuðum álitamálum á samfélagsmiðlum. Stundin sagði fyrst frá.

Þann 27. ágúst síðastliðinn lagði Samherji fram kæru fyrir siðanefnd Ríkisútvarpsins á hendur ellefu frétta- og dagskrárgerðarmönnum vegna þátttöku þeirra í þjóðfélagsumræðu um málefni Samherja á samfélagsmiðlum. Siðanefndin gerði einungis athugasemd við ummæli Helga Seljan.

Nefndin gerði athugasemd við eftirfarandi ummæli Helga:

„Vonandi er þessi árétting of einhliða fyrir hinn ballanseraða forstjóra Samherja.“

„Sæll Björgólfur Jóhannsson. Nú hef ég fylgst með þér fyrstu daga þína í starfi og vandræðum þínum við að höndla einfaldar staðreyndir um eignarhald fyrirtækisins sem þú stýrir; samanber þetta með Heinaste um daginn.“

„... En af því að ykkur virðist ekki auðlesið internetið er hér ein grein sem þú gætir byrjað á að lesa gæskur ... Þú þarft ekkert að biðja mig afsökunar samt.“

„Rosalega hlýtur þeim að líða vel með sig núna „andlitunum“ sem tóku þátt í að rétta við ímynd þessa kompanís eftir að upp um það komst.“

Einnig skrifaði helgi um yfirtökutilboð Samherja í Eimskip í október.

„Húrra fyrir Seðlabankastjóranum sem lét spila með sig… what a joke“ og „Það að þeim hafi verið heimilað að sleppa undan yfirtökuskyldu í mars vegna, Covid, var galið. Og sýnir sig núna að hafa verið hreinn fyrirsláttur.“

Í úrskurðarorðum er komist að þeirri niðurstöðu að tilgreind ummæli Helga Seljan feli í sér alvarlegt brot gegn siðareglum RÚV. Um sé að ræða ítrekuð tilvik yfir langan tíma sem feli í sér skýra og persónulega afstöðu Helga. Hins vegar verði að taka tillit til þess að ákvæðum siðareglnanna hafi ekki verið beitt fyrr sem ásamt því að RÚV sé ekki með skýrar leiðbeiningar um hvernig fréttamenn eigi tjá sig á samfélagsmiðlum.

„Telja verður að með þessum ummælum sínum, sérstaklega þegar þau eru saman tekin, en þó ekki aðeins, hafi Helgi Seljan gerst hlutdrægur og gengið lengra en það svigrúm sem hann hafi annars til þess að deila fréttum og fylgja þeim eftir með gagnrýnum spurningum eða ummælum, sambærilegum þeim sem hann myndi viðhafa sem fréttamaður, jafnvel þó slíkt væri gert í eigin nafni,“ segir í úrskurðinum. „Því er það mat siðanefndarinnar að í ofangreindum ummælum felist skýr og persónuleg afstaða í málefni kæranda, sem 4. mgr. 3. gr. siðareglnanna er ætlað að taka til, og því um að ræða brot á greininni.

Hvað varðar alvarleika brots Helga Seljan, verður að taka tillit til þess að ákvæðum siðareglnanna hefur ekki verið beitt fyrr, sem og að ekki liggja fyrir skýrar leiðbeiningar frá RÚV um hvernig fréttmenn eigi að haga tjáningu sinni á samfélagsmiðlum. Á móti kemur að hér er um að ræða ítrekuð tilvik yfir langan tíma. Í því ljósi telur siðanefndin að brot Helga sé alvarlegt, á mælikvarða 7. gr. starfsreglna siðanefndarinnar (ámælisvert, alvarlegt eða mjög alvarlegt).“