„Þetta var trúnaðarfundur og ég get lítið sagt,“ segir Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar. Nefndin fundaði um stöðu Íbúðalánasjóðs í morgun. Vandi Íbúðalánasjóðs hefur aukist sífellt ár frá ári. Útlán á fyrstu sjö mánuðum ársins voru innan við fjórðungur af því sem þau voru árið 2011.

„Þetta var gagnlegur fundur,“ segir Vigdís. Hún segir að verið sé að reyna að finna út úr framtíðarskipan sjóðsins og hver staðan sé. „Það er það sem ég get sagt við þig,“ segir hún.

„Þessi mál eru að fá á sig mynd og staðan gæti skýrst þegar líður að áramótum,“ segir Vigdís. Hún segir að allir hlutaðeigandi séu meðvitaðir um alvarleika málsins.