Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að staðan á Húsavík, Djúpavogi og Þingeyri sé mjög alvarleg eftir að forsvarsmenn útgerðarfélagsins Vísis sögðu frá því að þeir ætluðu að flytja alla starfsemi þaðan og til Grindavíkur. Kristján Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði hann á Alþingi í dag til hvaða mótvægisaðgerða hann myndi grípa.

„Það kallar á sértakar aðgerðir ef ekki tekst að leysa úr málum en mér skilst að einhverjar viðræður standi um það,“ sagði Sigmundur Davíð. Hann sagðist hafa fundað sérstaklega með sveitastjórnarmönnum úr þessum sveitarfélögum og fylgst grannt með þróun mála á þessum stöðum „Ég hef gert þeim grein fyrir að það kallar á sértækar aðgerðir ef ekki leysist úr málum,“ segir Sigmundur Davíð.

Hann segist ætla að eiga áfram gott samráð við sveitastjórnarmenn á þessum stöðum. Hann sagði þó að þingmenn myndu ekki taka einhliða ákvarðanir um það hvaða atvinnurekstur yrði á tilteknum stöðum.